Ýmsar spurningar hafa vaknað um fangavist Kampusch

Natascha Kampusch.
Natascha Kampusch.

Evr­ópsk blöð og tíma­rit hafa að und­an­förnu birt gagn­rýn­ar grein­ar um aust­ur­rísku stúlk­una Natascha Kamp­usch, sem haldið var fang­inni í neðanj­arðarbyrgi í rúm 8 ár. Hafa m.a. vaknað upp spurn­ing­ar um hvort ein­hvers­kon­ar sam­band hafi verið á milli for­eldra Kamp­usch og Wolfgangs Priklopils, sem rændi stúlk­unni þegar hún var tæpra 10 ára.

For­eldr­ar Kamp­usch voru ekki gift og bjuggu ekki sam­an þegar þetta gerðist en Kamp­usch bjó hjá móður sinni, Brigittu Sirny og ber upp­runa­legt eft­ir­nafn henn­ar. Þýska tíma­ritið Stern hafði í gær eft­ir konu, sem var ná­granni Sirny á þess­um tíma og vann í fyr­ir­tæki sem Sirny rak, að hún muni eft­ir Priklopil sem hafi komið í fyr­ir­tækið til að gera við raf­magns­tæki. Seg­ist hún hafa þekkt mann­inn af mynd­um, sem birt­ust af hon­um eft­ir að Kamp­usch tókst að sleppa.

Breska blaðið The Times fjallaði ýt­ar­lega um Kamp­usch í gær og er þar m.a. rætt við Christ­ine, sem rek­ur bar í Vína­borg. Seg­ir Christ­ine að Priklopil hafi verið einn af fasta­gest­un­um á barn­um og sömu­leiðis for­eldr­ar Kamp­usch. Móðirin hafi einnig nokkr­um sinn­um komið inn á bar­inn með litlu stúlk­una með sér. Velt­ir blaðamaður Times því fyr­ir sér hvort Priklopil hafi þekkt for­eldr­ana eða valið fórn­ar­lamb sitt á barn­um.

Þá er einnig í grein­inni rætt við konu, sem bjó á þess­um tíma með Ludwig Koch. Seg­ir hún að Natascha hafi sem barn sætt illri meðferð og ná­grann­arn­ir hafi stund­um þurft að hugga litlu stúlk­una gegn­um bréfal­úg­una þegar hún var skil­in ein eft­ir í íbúðinni.

Aust­ur­ríska tíma­ritið News sagði í gær, að banda­rísk kvik­mynda­fé­lög hefðu boðið Kamp­usch gull og græna skóga fyr­ir rétt­inn til að kvik­mynda sögu henn­ar enda stand­ist sag­an all­ar þær kröf­ur sem Hollywood ger­ir. Þetta sé saga um bar­átt­una milli hins illa og hins góða og það góða sigri að lok­um.

Grein The Times

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert