Ýmsar spurningar hafa vaknað um fangavist Kampusch

Natascha Kampusch.
Natascha Kampusch.

Evrópsk blöð og tímarit hafa að undanförnu birt gagnrýnar greinar um austurrísku stúlkuna Natascha Kampusch, sem haldið var fanginni í neðanjarðarbyrgi í rúm 8 ár. Hafa m.a. vaknað upp spurningar um hvort einhverskonar samband hafi verið á milli foreldra Kampusch og Wolfgangs Priklopils, sem rændi stúlkunni þegar hún var tæpra 10 ára.

Foreldrar Kampusch voru ekki gift og bjuggu ekki saman þegar þetta gerðist en Kampusch bjó hjá móður sinni, Brigittu Sirny og ber upprunalegt eftirnafn hennar. Þýska tímaritið Stern hafði í gær eftir konu, sem var nágranni Sirny á þessum tíma og vann í fyrirtæki sem Sirny rak, að hún muni eftir Priklopil sem hafi komið í fyrirtækið til að gera við rafmagnstæki. Segist hún hafa þekkt manninn af myndum, sem birtust af honum eftir að Kampusch tókst að sleppa.

Breska blaðið The Times fjallaði ýtarlega um Kampusch í gær og er þar m.a. rætt við Christine, sem rekur bar í Vínaborg. Segir Christine að Priklopil hafi verið einn af fastagestunum á barnum og sömuleiðis foreldrar Kampusch. Móðirin hafi einnig nokkrum sinnum komið inn á barinn með litlu stúlkuna með sér. Veltir blaðamaður Times því fyrir sér hvort Priklopil hafi þekkt foreldrana eða valið fórnarlamb sitt á barnum.

Þá er einnig í greininni rætt við konu, sem bjó á þessum tíma með Ludwig Koch. Segir hún að Natascha hafi sem barn sætt illri meðferð og nágrannarnir hafi stundum þurft að hugga litlu stúlkuna gegnum bréfalúguna þegar hún var skilin ein eftir í íbúðinni.

Austurríska tímaritið News sagði í gær, að bandarísk kvikmyndafélög hefðu boðið Kampusch gull og græna skóga fyrir réttinn til að kvikmynda sögu hennar enda standist sagan allar þær kröfur sem Hollywood gerir. Þetta sé saga um baráttuna milli hins illa og hins góða og það góða sigri að lokum.

Grein The Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert