Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, vék sér undan því í dag að lýsa opinberlega yfir stuðningi við Gordon Brown fjármálaráðherra sem arftaka sinn í leiðtogasæti Verkamannaflokksins. Ársþing flokksins hófst í Manchester í dag.
Blair lýsti því yfir fyrr í mánuðinum að hann myndi láta af leiðtogahlutverkinu innan árs, og þykir einsýnt að Brown taki við af honum. En í viðtali við BBC í dag vék Blair sér undan því að lýsa beinlínis yfir stuðningi við Brown. Blair hefur áður sagt að Brown yrði „stórsnjall“ leiðtogi.
„Ég vil ekki ræða um leiðtogakjörið og allt sem því fylgir,“ sagði Blair í viðtalinu. „Gordon hefur staðið sem með afbrigðum í fjármálaráðuneytinu. Hann hefur þjónað landinu og flokknum dyggilega.“