Varnarmálaráðuneytið í Bretlandi hefur farið leynt með það til fjölda ára að innan þess starfaði sérstök deild, DI55, sem rannsakaði fljúgandi furðuhluti yfir Bretlandi. Breska dagblaðið Guardian segir frá þessu en skýrsla um slíkar rannsóknir var birt að beiðni bresks sagnfræðings, sem vísaði til nýrra, breskra laga um aðgang að opinberum upplýsingum.
Embættismaður frá ráðuneytinu, sem nýtur nafnleyndar, segir að á áttunda áratug síðustu aldar, þegar kalda stríðið stóð hvað hæst, hafi menn óttast árás Sovétríkjanna en ekki fljúgandi furðuhluti. Því hafi tilkynningar um fljúgandi furðuhluti verið teknar alvarlega þar sem þær gætu þýtt að sovéskar flugvélar væru í lofthelgi Breta.
Í maí 1997 bjó ráðuneytið til skýrslu og sendi frá sér um rannsóknir hersins á fljúgandi furðuhlutum og segir þar að ekkert hafi bent til þess að slíkir hlutir tengdust ákveðnum löndum eða þjóðum. Oftast hafi verið um náttúrufyrirbæri að ræða sem fólk þekkti ekki til.