John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, mun láta af embætti innan árs, en hann greindi Verkamannaflokknum frá þessu í dag. Prescott, sem margir höfðu búist við að myndi láta af embætti á sama tíma og Tony Blair, sagði flokksþingi Verkamannflokksins í dag að fundurinn í dag myndi vera hans síðasti. Blair sagði slíkt hið sama þann 7. september sl. er hann var undir miklum þrýstingi flokksbræðra sinna að tilkynna brottfarardag.
Prescott þakkaði fyrir þann stuðning sem hann hefur hlotið og baðst afsökunar á þeirri vandaræðalegu uppákomu sem hann olli flokknum fyrir skemmstu. Sem kunugt er birti breskt götublað myndir af honum í apríl sl. þar sem hann sást gæla við ríkisstarfsmann og hann viðurkenndi síðar að hann hafi staðið í framhjáhaldi.
„Þessi flokkur hefur gefið mér allt og ég hef reynt að endurgjalda honum slíkt hið sama,“ sagði hann. „Ég veit að ég brást sjálfum mér í fyrra; ég brást ykkur [...] Ég vildi einfaldlega biðjast afsökunar á því.“