Þjófóttir klerkar í klípu; einn situr í varðhaldi á meðan annar er á flótta

Prélátinn John Skehan dró að sér fé úr sjóði sóknarbarna …
Prélátinn John Skehan dró að sér fé úr sjóði sóknarbarna sinna. Hann situr nú á bak við lás og slá. AP

Kaþólskur prestur í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn og annar er á flótta en þeim hefur verið gefið að sök að hafa stolið milljónum dala úr sjóði í eigu sóknarbarna sinna. Prelátinn John Skehan, sem er 79 ára, hefur verið ákærður fyrir stórþjófnað á meðan lögreglan í Flórída leitar að föður Francis Guinan. Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

Mennirnir tveir eru grunaðir um að hafa stolið 8,6 milljónum dala (rúmum 600 milljónum króna) frá söfnuðinum í Palm Beach og sóað fénu í fasteignir, ferðalög og veðmál.

Lögmaður Skehan segir tölurnar vera ýktar upp úr öllu valdi.

Skehan hafði þjónað kaþólsku kirkjunni St. Vincent Ferrer í um 40 ár og faðir Guinan tók við af honum fyrir um þremur árum.

Skehan notaði dró að sér fé úr sjóði sóknarbarnanna og notaði það til þess að kaupa sér fasteign að sögn lögreglunnar í Flórída.

Hvað varðar Guinan þá leiddi rannsókn málsins í ljós að hann eyddi fénu í ferðalög og fjárhættuspil, en hann heimsótti meðal annars spilavíti í Las Vegas og þá fór hann til Bahama-eyja.

Að sögn lögreglu hófst rannsóknin í kjölfar nafnlausrar ábendingar sem barst árið 2005.

Skehan var handtekinn á flugvellinum í Palm Beach er hann sneri aftur heim frá Írlandi að sögn embættismanna. Ekki er vitað hvar Guinan heldur til og leitar lögreglan hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert