Slitnaði upp úr viðræðum ESB og Bandaríkjanna um afhendingu persónuupplýsinga um flugfarþega

Evrópsk flugfélög eiga á hættu að verða neitað um lendingarleyfi …
Evrópsk flugfélög eiga á hættu að verða neitað um lendingarleyfi ef þau veita ekki upplýsingar um farþega sem bandarísk stjórnvöld krefjast Reuters

Í gærkvöldi slitnaði upp úr viðræðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um afhendingu persónuupplýsinga um flugfarþega á leið til Bandaríkjanna. Evrópudómstóllinn dæmdi í maí sl. samkomulag aðilanna tveggja ólöglegt, en frestur til samninga rann út í gær og gilda því í raun engar reglur um afhendingu persónuupplýsinga um flugfarþega.

Þetta þýðir að flugfélög sem neita að veita Bandaríkjamönnum upplýsingar eiga á hættu að verða neitað um lendingarleyfi í Bandaríkjunum, en flugfélög sem veita upplýsingarnar eiga á hinn bóginn á hættu að verða lögsótt á grundvelli laga Evrópusambandsins um upplýsingavernd. Yfirvöld segja þó að þetta muni ekki hafa áhrif á flug. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Michael Chertoff, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna segist viss um að samkomulag muni nást. Segist hann hafa verið fullvissaður um að evrópsk flugfélög muni áfram veita Bandaríkjamönnum þær upplýsingar sem yfirvöld krefjast og efast hann að sögn um að flugfélögum verði refsað fyrir að veita upplýsingarnar.

Bandaríkjamenn hafa frá árinu 2003 krafist þess að flugfélög veiti öryggisyfirvöldum þar í landi upplýsingar m.a. um síma- og greiðslukortanúmer farþega, en alls er um að ræða 34 atriði sem gefa verður upp innan fimmtán mínútna frá brottför flugs til Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert