Danska dagblaðið Jyllands-Posten fullyrðir á fréttavef sínum, að Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, verði utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Fredriks Reinfeldts, sem kjörinn var forsætisráðherra Svíþjóðar í dag. Reinfeldt mun kynna ráðherralista sinn á morgun og flytja stefnuræðu ríkisstjórnarinnar.
Jyllands-Posten segir hafa það eftir heimildarmanni, sem þekki vel til mála, að Reinfeldt hafi boðið Bildt utanríkisráðherrastólinn þegar eftir þingkosningarnar 17. september en Bildt hafi ekki þegið boðið fyrr en eftir talsverðar samningaviðræður.
Bildt, sem er 57 ára, var forsætisráðherra Svíþjóðar á árunum 1991 til 1994. Hann var þingmaður í 22 ár frá 1979 til 2001. Frá því á miðjum 10 áratug síðustu aldar hefur hann gegnt mörgum embættum á alþjóðavettvangi og var m.a. í lykilhlutverki í friðarviðræðum milli ríkjanna á Balkanskaga.