Bandaríska alríkislögreglan, FBI, og fleiri bandarískar löggæslustofnanir fá aðgang að persónuupplýsingum um farþega sem koma með flugi frá Evrópusambandslöndum til Bandaríkjanna, samkvæmt samkomulagi sem náðist í morgun, eftir níu klukkustunda maraþonfund. Kemur þetta samkomulag í stað samkomulags frá 2004 sem evrópskur dómstóll ógilti á lögformlegum forsendum.
Samkomulagið sem náðist í morgun er til bráðabirgða og gildir þar til í júlí á næsta ári, en þá er ætlunin að búið verði að komast að varanlegu samkomulagi.
Samkvæmt samningnum hefur heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna ekki sjálfgefinn rétt til að sækja upplýsingar í tölvukerfi evrópskra flugfélaga, heldur verður að biðja um upplýsingarnar. Bandaríska tollgæslan hefur einungis heimild til að deila upplýsingum um farþega með öðrum löggæslustofnunum sem tryggja gagnavernd með sambærilegum hætti.
Eftir sem áður munu flugfélög samkvæmt lögum senda upplýsingar um 34 atriði um hvern farþega, þ.á m. nöfn, heimilisföng, sætisnúmer, krítarkort og ferðaáætlun þeirra, auk upplýsinga um hvaða gögn liggja ekki fyrir um þá, til bandarískra yfirvalda í síðasta lagi 15 mínútum eftir að flugvél farþeganna leggur af stað frá Evrópu til Bandaríkjanna.