Grameen Bank og stofnandi hans fá friðarverðlaun Nóbels

Muhammad Yunus, stofnandi stærstu smálánastofnunar heims, Grameen Bank, hlýtur friðarverðlaun Nóbels ásamt Grameen Bank. Stofnandi bankans, Muhammad Yunus, var prófessor í hagfræði við Chittagong-háskólann í Bangladesh þegar hann lánaði nokkrum iðnaðarmönnum 27 dollara árið 1974. Lánið fékk hann greitt til baka, en það varð kveikjan að hugmyndinni að stofnun Grameen-verkefnisins.

Yunus sneri hinni hefðbundnu mynd af bönkum á hvolf með stofnun Grameen bank. Bankar vilja veita stór lán en Grameen keppist við að hafa lánin sem minnst. Hefðbundnir bankar krefjast mikillar pappírsvinnu en Grameen lánar aðallega þeim sem ekki kunna að lesa. Bankar lána nær eingöngu eignafólki en Grameen lánar eingöngu eignalausum, að því er segir í grein eftir Kristján Torfa Einarsson, sem birt var í Morgunblaðinu í júlí sl.

Til að tryggja endurgreiðslu lánanna kom Yunus á fót litlum stuðningshópum þar sem meðlimirnir aðstoða hver annan þegar einhver kemst í greiðsluþrot. Hóparnir hittast ásamt starfsmanni Grameen einu sinni í viku, miðla af reynslu sinni og deila viðskiptahugmyndum. Nær eingöngu konur eru í hópunum, en 96% viðskiptavina Grameen eru konur.

Upphaflega var hugmyndin sú að veita körlum jafnt sem konum lánin, hins vegar kom fljótlega í ljós að afskriftir voru miklu minni hjá konum en körlum.

Starfsemi Grameen hefur aukist ár frá ári og eru innlánsreikningar og tryggingar nú hluti af þjónustunni. Þá hefur Grameen í samstarfi við norska símafyrirtækið Telenor komið á fót svokölluðum þorpssímstöðvum í Bangladesh. Verkefnið er fjármagnað með lánum til kvenna sem kaupa síma útbúna sólarrafhlöðu og stofna svo fyrirtæki þar sem þorpsbúum gefst kostur á að hringja gegn vægu gjaldi. Hugmyndin hefur breiðst út og eru svipuð verkefni nú í gangi í Afríku og Suðaustur-Asíu. Annað verkefni er litlar þorpsheilsugæslustöðvar þar sem læknar í Dhanka aðstoða þorpsbúa í gegnum myndsíma.

Muhammad Yunus, stofnandi Grameen Bank
Muhammad Yunus, stofnandi Grameen Bank Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert