Þúsundir Íraka flýja land á degi hverjum

Föstudagsbænir í Sadr-borg í dag.
Föstudagsbænir í Sadr-borg í dag. Reuters

Þúsundir Íraka flýja landið á degi hverjum og segir Flóttamannahjálp SÞ fólksflóttann „stöðugan og hljóðlátan“. Írökum sem leita hælis á Vesturlöndum fer fjölgandi, og einnig þeim Írökum sem flosna upp frá heimilum sínum. Hafi um 365.000 hrakist að heiman það sem af er árinu.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC.

Flóttamannahjálpin hefur einbeitt sér að því að hjálpa útlægum Írökum að snúa aftur heim. Á síðasta ári hafi um 50 þúsund komið aftur til Íraks frá nágrannalöndunum, en einungis eitt þúsund á þessu ári. Talsmaður hjálparinnar sagði að starfsmenn stofnunarinnar, sem hefðu eftirlit með landamærunum að Sýrlandi, hafi talið um tvö þúsund manns fara frá Írak til Sýrlands á dag, eða yfir 40.000 manns á einum mánuði.

Áætlað sé að um 50.000 manns flýi Írak á mánuði, en flestir sem farið hafi til Sýrlands og Jórdaníu hafi ekki skráð sig hjá Flóttamannahjálpinni og því megi segja að um „hljóðlátan“ fólksflótta sé að ræða.

Því hafi verið brugðið á það ráð að leggja megináherslu á að hjálpa Írökum sem hafi flúið ófriðinn í landinu, fremur en að hjálpa þeim sem vilji snúa heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert