Fyrsta vikan var nýju sænsku ríkisstjórninni erfið

Fredrik Reinfeldt
Fredrik Reinfeldt Reuters

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í gær að rannsókn muni fara fram á fjármálum Mariu Borelius, viðskiptaráðherra. Komið hefur í ljós að sveitasetur, sem Borelius og eiginmaður hennar keyptu, er skráð á félag í skattaskjólinu Jersey. Einnig hefur komið fram að Borelius greiddi nokkrum dagmæðrum laun á 10. áratug síðustu aldar án þess að gefa það upp til skatts.

Reinfeldt segir, að lögmenn Hægriflokksins muni afla upplýsinga hjá Borelius og Greger Larsson, manni hennar, um fjármál þeirra. Síðan verði tekin ákvörðun um hvort Borelius geti setið áfram í ráðherraembætti.

Sænsk blöð upplýstu í gærmorgun að sveitasetur Borelius og Larsson í Falsterbo væri skráð á félagið Full Moon Investment Limited í St. Helier á Jersey. Hins vegar hefði Larsson skrifað undir kaupsamninginn árið 2002. Húsið var keypt á 6,8 milljónir sænskra króna en er nú metið á um 10 milljónir, eða um 100 milljónir íslenskra króna. Hefur verið látið að því liggja, að með þessu móti hafi þau Borelius og Larsson komið sér hjá því að greiða fasteignaskatt af húsinu.

Aftonbladet hefur einnig upplýst að þau Borelius og Larsson eigi íbúð í Cannes í Frakklandi. Sú íbúð sé skráð á félag í eigu Karls nokkurs Larssons, en millinafn Gregers sé Karl. Að auki eiga hjónin hús í Djursholm þar sem þau búa nú.

Borelius komst fyrir alvöru í sviðsljós sænskra fjölmiðla þegar hún hélt því fram, að hún hefði greitt dagmæðrum „svart" vegna þess að hún hefði ekki haft ráð á öðru. Í ljós kom að tekjur Borelius og manns hennar voru samtals um 16 milljónir sænskra króna á tíunda áratugnum. Þá hefur einnig komið í ljós að Borelius tilkynnti ekki um hlutabréfaviðskipti, sem fóru fram nýlega, eins og henni bar að gera.

Fleiri sænskir ráðherrar hafa lent í vandræðum vegna fjármála sinna í vikunni en ný ríkisstjórn tók við völdum í Svíþjóð í síðustu viku. Í ljós kom að Cecilia Stegö Chilò, menningarmálaráðherra, hefur ekki greitt afnotagjald af sænska ríkisútvarpinu í 16 ár, en Chilò er m.a. æðsti yfirmaður ríkisútvarpsins sem menningarráðherra. Annar ráðherra, Tobias Billström, reyndist ekki hafa greitt afnotagjöld í 10 ár. Borelius hefur heldur ekki greitt afnotagjöld frá því hún flutti lögheimili sitt aftur til Svíþjóðar í haust eftir sex ára dvöl á Englandi.

Þá hafa tveir ráðherrar viðurkennt að hafa reykt hass fyrir mörgum árum og Andreas Carlgren, umhverfisráðherra, er sakaður um að hafa gefið rangar upplýsingar um tekjur sínar eftir að hann hætti á þingi árið 1998 og þannig komið sér undan að greiða skatt af um 130 þúsund sænskum krónum. Carlgren segir að um misskilning að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert