Náttúruverndarsamtökin IWMC World Conservation Trust lýsa yfir stuðningi við hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni og hvetja alþjóðasamfélagið til þess að taka upp hvalveiðistjórn. IWMC segja hvalastofnana á veiðisvæðinu vera 25.000 og 43.000 skepnur. Forstöðumaður IWMC, Eugene Lapointe, segir Íslendinga ætla að veiða það lítinn hluta af stofnum hvalanna að menn hljóti að vera með óráði að halda því fram að veiðarnar hafi áhrif á þá.
Árið 2002 fengu samtökin IWMC styrk upp á 756.150 krónur frá sjávarútvegsráðuneytinu vegna verkefnis um nýtingu náttúruauðlinda.
„Andstæðingar veiðanna halda því fram að það sé ekki markaður fyrir hvalkjöt. Ef það er rétt, hvernig geta þeir þá haft áhyggjur af ofveiði hvala?" spyr Lapointe. Staðreyndin sé sú að það sé ákvörðun veiðimannanna sjálfra hvort þeir leggi fé sitt í veiðarnar, ekki dýraverndarsamtaka. Íslensk stjórnvöld eigi svo að fylgjast með veiðunum og gæta þess að þær séu innan löglegra marka.
Lapointe veltir því fyrir sér hvort verið sé að gagnrýna hvalveiðar til að beina athyglinni frá umhverfisvandamálum og segir að svo virðist sem dýraverndarsamtök berjist gegn hvalveiðum í fjáröflunarskyni. Alþjóðahvalveiðiráðið, IWC, eigi að stjórna hvalveiðum í heiminum en veiðar fari þó að mestu fram án tillits til ákvarðana þess. IWMC sé þeirrar skoðunar að aðeins sé hægt að vernda hvalastofna með því að koma á alþjóðlega viðurkenndu eftirliti með þeim. Frá þessu segir í tölvupósti frá samtökunum.