Pútín sakaður um óviðurkvæmilegt grín

Það leikur mörgum forvitni á að vita hvað þeim Pútin …
Það leikur mörgum forvitni á að vita hvað þeim Pútin og Olmert fór á milli eftir að blaðamannafundinum lauk Reuters

Rússneskur blaðamaður segist hafa heyrt Vladimir Pútín, forseta Rússlands, ræða karlmennsku forseta Ísraels, Moshe Katsav, að afloknum blaðamannafundi. Samkvæmt blaðamanninum á Pútín að hafa sagt að Katsav sé öflugur maður og að þeir öfundi hann allir. Katsav liggur undir grun um að hafa nauðgað fjölda kvenna úr starfsliði sínu.

Á vef BBC kemur fram að talsmaður stjórnvalda í Rússlandi hafi sagt að um grín hafi verið að ræða hjá Pútín sem ekki hefði átt að fara lengra en Pútín á að hafa sagt þetta í lok blaðamannafundar sem hann hélt ásamt Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísrael, í Moskvu þar sem málefni Íran voru til umræðu.

Þegar leiðtogarnir voru að fara af fundinum náðust ummælin að hluta til á upptöku eins blaðamannsins. Samkvæmt upptökunni heyrist Pútín segja við Olmert að skila kveðju til forsetans en síðan slökknaði á upptökunni. Blaðamaðurinn, Andrei Kolesnikov, staðhæfir í viðtali við BBC að hann hafi heyrt allt sem Pútín hafi sagt. „Þvílíkt ofurmenni sem hann reynist vera. Hann nauðgaði tíu konum - ég hefði aldrei búist við þessu af honum. Hann kom okkur öllum á óvart - og við öfundum hann allir," að því er Koesnikov hefur eftir Pútín. Í kjölfarið hafi brotist út almennur hlátur.

Talsmaður forsetaskrifstofunnar, Dmitri Peskov, sagði í samtali við BBC að það standist engan veginn að Pútín líti á nauðgun sem eðlilegan hlut. Jafnframt að rússneska sé mjög flókið tungumál og oft sé auðvelt að misskilja orð sem hafa margar merkingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert