Enginn að sigra í Írak samkvæmt nýrri bandarískri könnun

Unglingspiltur ber lítin dreng, sem særðist í sprengjuárás í Bagdad, …
Unglingspiltur ber lítin dreng, sem særðist í sprengjuárás í Bagdad, á sjúkrahús. AP

Einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum er þeirrar skoðunar að Bandaríkin séu að vinna sigur í Írak ef marka má niðurstöður skoðunarkönnunar. Helmingi fleiri voru hinsvegar á þeirri skoðun í desember sl.

Álíka margir, eða um 18% svarenda, telja að uppreisnarmenn séu að bera sigur úr býtum. Hinsvegar segir meirihluti Bandaríkjamanna að enginn sé að sigra í Írak.

Alls tóku 1.013 Bandaríkjamenn þátt í símakönnuninni og af þeim sögðu tveir þriðju, eða 64%, að þeir væru á móti Íraksstríðinu.

Þá vill meirihluti svarenda, eða 57%, að Bandaríkin tilgreini sérstaklega hvenær þau hyggist draga herlið sitt frá Írak. Ríkisstjórn George W. Bush hefur verið því mótfallin en hún segir að það væri aðeins til þess að styrkja óvininn. Það er hinsvegar ekkert launungamál að hið daglega ofbeldi sem á sér stað í Írak hafi dregið verulega úr stuðningi við stríðið.

Könnunin, sem var gerð sl. þrjá daga, sýnir fram á að fólk sé orðið mun svartsýnna gagnvart stríðinu gegn hryðjuverkum. 60% eru óánægðir með það hvernig Bandaríkjunum gengur í því stríði. Í síðasta mánuði voru 53% á þeirri skoðun.

Nú er hálfur mánuður þar til gengið verður til kosninga í Bandaríkjunum og segja 51% svarenda að þeir telji að demókratar myndu standa sig betur í Írak. 40% segja aftur á móti að repúblikanar myndu gera betri hluti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert