Slobodan Milosevic, fyrrum forseti Júgóslavíu og Serbíu, hefur verið boðið að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu í Serbíu um framtíð Kosovo-héraðs sem fram á að fara um helgina, en Milosevic lést í mars á þessu ári í haldi stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt fréttum serbneskra dagblaða var kosningakort sent út fyrir Milosevic þar sem fram kemur að hann sé á kjörskrá í úthverfi Belgrad.
Þjóðaratkvæðagreiðslan um helgina fylgir í kjölfar lagabreytinga sem samþykktar voru á serbneska þinginu í síðasta mánuði þar sem kveðið er á um stjórnarskrárbreytingar varðandi stöðu Kosovo-héraðs.
Milosevic háði harða baráttu fyrir því í lok síðustu aldar að halda Kosovo innan júgóslavneska ríkjasambandsins og árið 1999 gerði Atlantshafsbandalagið loftárásir á Serbíu til að stöðva hernaðaraðgerðir þeirra í Kosovo. Í kjölfarið var Milosevic steypt af stóli og árið 2001 var hann framseldur til stríðsglæpadómstólsins. Réttarhöld stóðu yfir yfir honum er hann lést af völdum hjartaáfalls í fangaklefa sínum.