George W. Bush Bandaríkjaforseti mun verja stefnu sína í Írak í dag að sögn talsmanns Hvíta hússins en hann mun ekki tilkynna breytingar á herliði Bandaríkjanna á blaðamannafundi sem hann hefur boðað til á eftir. Tvær vikur eru þar til Bandaríkjamenn ganga til þingkosninga og hefur Íraksmálið, sem nýtur sífellt minni stuðnings, skyggt mjög á önnur málefni í kosningabaráttunni.
Bush mun sitja fyrir fyrirspurnum klukkan 10:30 að staðartíma (kl. 14:30 að íslenskum) degi eftir að bandarískir embættismenn í Írak greindu frá tímaáætlun sem lýtur að því hvenær tilteknum áföngum á sviði stjórnmála og öryggismála verði náð.
„Forsetinn mun hefja blaðamannafundinn með efnismikilli yfirlýsingu varðandi Írak, sem fylgir í kjölfar þeirra nýju upplýsinga sem hernaðarleiðtogar og diplómatar í Írak greindu frá í gær,“ sagði Dana Perino, talskona Hvíta hússins.
Að sögn annars embættismanns í Hvíta húsinu verður ekkert minnst á hvort fjölga eigi eða draga úr herliði Bandaríkjanna í Írak, sem er afar heitt umræðuefni fyrir þingkosningarnar sem fara fram þann 7. nóvember nk.