Kaupmannahafnarbúar eru margir hverjir orðnir svo þreyttir á því pappírsflóði sem fylgir ókeypis dagblöðum að þeir hleypa ekki blaðberum að póstkössum sínum. Þrjú fríblöð eru nú borin út í borginni, Dato, 24timer og svo dagblað Dagsbrúnar, Nyhedsavisen. Nú hafa í það minnsta tvö samtök húseigenda tekið þá ákvörðun að láta ekki lykla af útidyrum í hendur blaðberum, en um 40.000 húseignir eru á skrá samtakanna í Kaupmannahöfn og nágrenni.
Danska dagblaðið Politiken segir frá þessu á vefsíðu sinni. Þar segir að fólk kvarti gífurlega yfir pappírsflóðinu og vilji ekki sjá þessi blöð þar sem þau liggi á víð og dreif í anddyrum fjölbýlishúsa.
Þó leyfa fyrrnefnd húseigendasamtök einstökum húsfélögum að ráða hvort þau vilji fríblöðin. Þá eru 73.000 Danir sagðir hafa fengið sér límmiða sem á er prentað að þeir vilji ekki fríblöðin og berast 500-1.000 beiðnir um slíkan miða á degi hverjum.