Ástralskur múslímaklerkur krafinn um afsökunarbeiðni vegna umdeildra ummæla

Ástralskur múslímaklerkur hefur verið sakaður um að segja að konur bjóði upp á að þær verði fyrir kynferðisárásum sökum klæðaburðar þeirra. Í predikun nýverið lét Sheikh Taj el-Din al-Hilali þau ummæli falla að konur sem bera ekki hijab (sem er höfuðslæða) væru eins og óhulin kjötstykki.

Afrit af predikunaræðu Hilalis hefur verið birt í áströlsku dagblaði.

Konur sem eru leiðandi meðal múslímasamfélagins hafa fordæmt ummælin, sem og ríkisstjórn landsins, og hafa krafist þess að Hilali biðjist afsökunar á þeim.

Talsmaður Hilali segir hinsvegar að ummæli hans hafi verið tekin úr samhengi og að þau vísi ekki til kynferðisárása heldur kynferðislegrar ótryggðar.

Gagnrýnendur Hilalis hafa þegar sakað hann um að hafa lofsamað sjálfsvígssprengjumenn og um að hafa sagt að hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þann 11. september árið 2001 hafi verið „Verk Guðs gagnvart kúgurunum.“

Hin umdeildu ummæli sem klerkurinn lét falla í þetta sinn voru sögð í áheyrn 500 tilbiðjenda við athöfn í Sydney í september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert