Ógn steðjar að tjáningarfrelsinu á netinu

Amnesty segir tjáningarfrelsi manna eiga í vök að verjast.
Amnesty segir tjáningarfrelsi manna eiga í vök að verjast. Reuters

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa beðið bloggara um að sýna stuðning við tjáningarfrelsi í verki. Samtökin vilja einnig að aðrir sem skrá atburði líðandi stundar á vefinn varpi ljósi á slæmar aðstæður annarra bloggara sem hafa verið settir á bak við lás og slá fyrir það eitt sem þeir hafa skrifað.

Amnesty segir að grundvallarmannréttindi svo sem tjáningarfrelsi eigi í vök að verjast um þessar mundir.

Herferð mannréttindasamtakanna á sér stað á sama tíma og Sameinuðu þjóðirnar halda ráðstefnu þar sem rætt verðu um framtíð netsins.

„Tjáningarfrelsi á netinu er réttur fólks, en ekki forréttindi. En það er réttur sem þarf að vernda,“ sagði Steve Ballinger hjá Amnesty International. „Við erum að biðja bloggara um allan heim að sýna samstöðu með þeim netnotendum í löndum þar sem þeir geta átt von á því að þurfa að fara í fangelsi fyrir það eitt að gagnrýna ríkisstjórnina.“

Ballinger nefndi íranska bloggarann Kianoosh Sanjari sem eitt dæmi um þær hættur sem stafa að þeim sem skrifa á netið. Sanjari var handtekinn fyrr í þessum mánuði fyrir að hafa bloggað um átök milli írönsku lögreglunnar og stuðningsmanna sjítaklerksins Ayatollah Boroujerdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka