Æðsti múslímaklerkur Ástralíu kann að hafa valdið skaða á áströlsku samfélagi með öfgakenndum viðhorfum sínum, sagði fjármálaráðherra landsins, Peter Costello, í dag. Klerkurinn lýsti því yfir að hann ætlaði nú að láta af embætti af heilsufarsástæðum.
Klerkurinn, Sheik Taj Aldin al-Hilali, hefur verið múfti í Ástralíu frá 1989 og er alræmdur fyrir meiðandi yfirlýsingar sínar. Bæði múslímar og aðrir höfðu hvatt hann til að láta af embætti í kjölfar umdeildra orða sem hann lét falla í ræðu fyrir mánuði, en þá líkti hann konum sem ekki bera höfuðklúta við „óinnpakkað kjöt“, og sagði að konur sem klæddust ósiðsamlega biðu heim nauðgunum.