Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, segir að uppreisnarmenn í Írak hafi hert árásir sínar í landinu í því skyni að hafa áhrif á komandi þingkosningar í Bandaríkjunum.
Sú uppsveifla sem hefur átt sér stað í árásum al-Qaeda og annarra er miðuð að því að „brjóta á bak aftur vilja Bandaríkjamanna“. „Þeir eru afar viðkvæmir gagnvart þeirri staðreynd að við erum búnir að tímasetja kosningar,“ sagði varaforsetinn sem heldur því fram að uppreisnarmennirnir fylgist með skoðunum bandarísks almennings á netinu.
Október hefur verið einn mannskæðasti mánuðurinn fyrir Bandaríkjaher í Írak.
Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins BBC í Washington segir að Íraksstríðið sé allsráðandi í kosningabaráttunni nú þessa síðustu daga fyrir kosningar. Repúblikanar óttast að þeir muni missa stjórn á annarri eða báðum deildum Bandaríkjaþings.
Samkvæmt skoðanakönnunum fer stuðningur við Íraksstríðið dvínandi og sífellt fleiri Bandaríkjamenn vilja að hermennirnir verði kvaddir heim.
Ekki er búið að ákveða tímasetningu varðandi það og þá hefur bandaríska varnarmálaráðuneytið staðfest að hermönnum í Írak verði fjölgað um 15.000.