Bush gagnrýnir John Kerry harðlega

George W. Bush Bandaríkjaforseti gagnrýndi John Kerry, þingmann demókrata, harðlega fyrir að hafa látið þau ummæli falla að þeir sem standa sig ekki í náminu í Bandaríkjunum „festist í Írak“, og krafðist Bush afsökunarbeiðni af hálfu Kerrys fyrir hönd bandarískra hermanna í Írak.

Vika er þar til gengið verður til þingkosninga í Bandaríkjunum og mikill hiti er í mönnum. Deilur Bush og Kerrys minna um margt á slag þeirra um forsetaembættið árið 2004. Bush sagði að ummæli Kerrys væru bæði „móðgandi og svívirðileg“. Kerry svaraði fyrir sig og sagði ásakanirnar vera „fjarstæðukenndar“ og að þær byggi á lygi.

Á fundi með háskólanemum í gær sagði Kerry: „Þið vitið að menntun, ef þið nýtið hana sem best, lærið af krafti, leysið heimaverkefni ykkar og þið leggið ykkur fram við að vera gáfuð, þá getur ykkur gengið vel. Ef þið gerið það ekki þá festist þið í Írak.“

Repúblikanar, sem hafa miklar áhyggjur af því að stríðið óvinsæla muni kosta þá meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, voru fljótir að grípa ummæli Kerrys á lofti og skjóta föstum skotum á þingmanninn.

Kerry, sem hefur verið heiðraður fyrir hermennsku sína í Víetnam, var reiður þegar hann útskýrði að ummæli hans hafi verið brandari sem hafi klúðrast, og hann hafi varðað forsetann og hans menn en ekki hermennina.

„Ef einhverjir halda að fyrrverandi hermaður myndi á nokkurn hátt gagnrýna yfir 140.000 hermann sem eru að störfum í Írak en ekki forsetann og hans menn sem sendu fólkið þangað, þá eru þeir brjálaðir,“ sagði Kerry á blaðamannafundi í Seattle í dag.

„Núverandi forseti og ríkisstjórn hans unnu ekki heimavinnuna sína. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því sem myndi gerast í Írak. Þeir kynntu sér hvorki né hlustuðu á fólkið sem voru sérfræðingarnir og hefði sagt þeim stöðuna. Og þeir vita vel að það var það sem ég var að tala um í gær,“ sagði Kerry.

„Sú tilgáta þingmannsins að þeir karlar og þær konur sem mynda herinn okkar séu á einhvern hátt ómenntuð er bæði móðgandi og svívirðileg,“ sagði Bush í ræðu sem hann flutti á fjöldafundi repúblikana í suðurríkjum Bandaríkjanna í dag.

Bush sagði að ástæðan fyrir því að hermennirnir hefðu skráð sig í herinn hefði ekkert með námsárangur að gera. Ástæðuna mætti rekja til þess að um föðurlandsvini væri að ræða sem væru með svo sannarlega með vit í kollinum.

„Sama hvaða flokki þú tilheyrir, og sama hvað þér finnst um stríðið í Írak þá ættum við öll að vera sammála um það að hermennirnir okkar eigi skilið stuðnings frá okkur,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Þeir Kerry og Bush takast nú á líkt og þeir …
Þeir Kerry og Bush takast nú á líkt og þeir gerðu fyrir tveimur árum er þeir öttu kappi um forsetaembættið. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert