Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínu, ítrekaði ákall sitt eftir því að alþjóðasamfélagið leggi sitt af mörkum til þess að binda enda á hernaðaraðgerðir Ísraela á Gaza, en alls hafa 33 fallið í þeim á sl. þremur dögum.
„Forsetinn biður alþjóðasamfélagið um að skerist í leikinn þegar í stað til að stöðva aðgerðir Ísraela á Gaza og þau fjöldamorð sem hafa verið framin þar undanfarna þrjá daga, en þau hafa leitt til dauða rúmlega 30 manns,“ segir í yfirlýsingu sem Abbas sendi frá sér.
Abbas varar jafnframt við þeirri hættu að ástandið gæti versnað til muna miðað við núverandi aðstæður.
Ísraelsher gerði tugi loftárása á Gaza í kvöld en herinn hefur nú hert hernaðaraðgerðir sínar við bæinn Beit Hanun sem er norðarlega á Gaza-svæðinu. Ísraelar halda því fram að herskáir Palestínumenn noti bæinn til þess að skjóta eldflaugum til Ísraels.