Spænskir saksóknarar ætla að krefjast meira en 38.000 ára fangelsisdóms yfir þeim sem ákærðir hafa verið vegna hryðjuverkaárásanna í Madrid árið 2004 við réttarhöldin á næsta ári. Dómskrafan verður hluti af skýrslu sem saksóknarinn Olga Sanchez skilar landsdómstólnum síðar í þessari viku.
Búist er við því að Sancez krefjist hörðustu refsingarinnar yfir sjö þeirra sem grunaðir eru um að hafa verið í lykilhlutverki. Meðal þeirra, er Jamal Zougam, marokkóskur verslunarmaður sem grunaður er um að hafa útvegað farsíma sem notaðir voru til að sprengja sprengjurnar um borð í fjórum farþegalestum.
191 lét lífið í árásunum, en hundruð særðust og örkumluðust varanlega. Sanchez krefst þrjátíu ára dóms fyrir hvert morð og 18 ára dóms fyrir hverja morðtilraun, sem samtals yrðu 38.490 ár.