Washington. AFP. | Samkvæmt skoðanakönnunum verða demókratar sigurvegarar í þingkosningunum í Bandaríkjunum á morgun. Spáð er að þeir nái meirihluta í fulltrúadeildinni og jafnvel einnig í öldungadeildinni.
Repúblikanar hafa haft meirihluta í 435 manna fulltrúadeildinni í 12 ár. Kosið verður um öll sætin sem og 33 sæti í öldungadeildinni. Demókratar þurfa að bæta við sig 15 sætum í fyrrnefndu deildinni og sex sætum í þeirri síðarnefndu til að ná meirihluta á báðum stöðum. Repúblikanar eru með 231 sæti í fulltrúadeildinni og demókratar 201. Einn óháður situr í deildinni og tvö sæti eru laus. Repúblikanar eru með 55 sæti í öldungadeildinni, demókratar 44 og óháðir eitt sæti. Í kosningunum verður kosið um 18 sæti sem demókratar eru með og 15 sæti repúblikana. Þá verða kosnir 36 ríkisstjórar og eiga demókratar 14 sæti að verja en repúblikanar 22 stöður.
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, á eftir tvö ár í embætti og nái demókratar meirihluta í fulltrúadeildinni gera þeir honum lífið erfitt.
Samkvæmt könnun sem bandaríska tímaritið Newsweek birti á laugardag eru 32% kjósenda með hugann við stríðið í Írak, 19% leggja áherslu á efnahagsmálin og 12% setja aðgerðir gegn hryðjuverkum í efsta sæti. Heilbrigðismál eru í fyrsta sæti hjá 11% kjósenda.