Jan Egeland, sá er samhæfir hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna, krafðist þess í dag að alþjóðlegu banni yrði komið á notkun klasasprengja. Alþjóðarauði krossinn sendi frá sér sambærilega kröfu í gær. Egeland sagði að ef slíku banni yrði ekki komið á myndu þessi vopn áfram limlesta og skaða fólk.
Egeland sagði þetta á fundi sem haldinn var í Genf í dag til endurskoðunar 26 ára samnings um stjórn á hefðbundnum vopnum. Klasasprengjur geta verið agnarsmáar og eru settar í fallbyssukúlur eða sprengjur sem sleppt er úr flugvélum. Hver sprengja dreifir milli 200 og 600 slíkum smásprengjum yfir svæði sem er á stærð við fótboltavöll.
Mannréttindasamtök telja að Ísraelsher hafi sleppt allt að 4 milljónum klasasprengja yfir Líbanon í sumar og að um 40% þeirra hafi ekki sprungið við lendingu. Sprengjurnar eru oft litsterkar með litlum fallhlífum í og því gætu börn tekið þær upp og sprengjurnar sprungið við það.