Austurrískur þingmaður segir nasismann hafa haft sínar góðu hliðar

Þingmaður Frelsisflokksins í Austurríki olli mikilli reiði þegar hann sagði að nasisminn hefði haft „sínar góðu hliðar“ í þætti í austurríska sjónvarpinu í gærkvöldi. „Nasisminn hafði auðvitað sínar góðu hliðar, við viljum bara ekki sjá þær í dag,“ sagði þingmaðurinn Wolfgang Zanger, og bætti því við að Adolf Hitler hefði gefið þýsku þjóðinni nýja von þegar ástandið í Þýskalandi var sem verst.

Strax í dag hefur verið farið fram á afsögn þingmannsins, auk þess sem honum hefur verið hótað málssókn. Reinhold Lopatka, formaður Íhaldsflokksins, sagði að ummælin væru hneykslanleg og Græningjar fóru fram á afsögn Zingers.

Zanger komst á þing í kjölfar kosninganna þann 1. október þar sem Frelsisflokkurinn hlaut 11% atkvæða og 21 sæti á þingi, þremur meira en árið 2002.

Stjórn Frelsisflokksins lýsti því yfir í dag að Zanger muni ekki segja af sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka