Olmert kallar árásina á Gaza „tæknileg mistök"

Ehud Olmert.
Ehud Olmert. Retuers

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að sprengjukúluárás ísraelska hersins sem varð 18 óbreyttum borgurum á Gaza-svæðinu að bana, hafi verið gerð vegna „tæknilegra mistaka". Hann lét í ljósi iðrun vegna blóðbaðsins og kvaðst hafa kannað sjálfur hvers vegna árásin hafi verið gerð aðfaranótt gærdagsins.

Olmert bætti við að Ísraelar muni halda áfram aðgerðum á Gaza svo lengi sem Palestínumenn gerðu eldflaugaárásir þaðan á Ísrael. Ísraelar myndu gera allt sem þeir gætu til að koma í veg fyrir að mistökin endurtaki sig. Hann varaði þó við því að frekari harmleikur kynni að verða.

Olmert sagði að sprengjukúluárásinni hefði verið beint að appelsínuakri, en þaðan hefðu herskáir Palestínumenn skotið elflaugum. Árásin hefði misst marks vegna tæknilegra mistaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert