Sandkassinn einn er eftir

Í samræmi við öryggisreglugerð Evrópusambandsins mega engin leiktæki vera á leikvellinum við barnaskólann í Rygge í Noregi - nema sandkassinn. Klifurvegg, rólur, rennibrautir og fleiri leiktæki varð að fjarlægja, þrátt fyrir að lagt hafi verið í umtalsverðan kostnað við að byggja leikvöllinn.

„Nú búum við við fullkomlega bandarískar aðstæður. Það er ætlast til að við pössum börnin okkar eins og þau væru postulínsdúkkur. Þetta er ferlegt,“ sagði Thomas Evjenn, formaður foreldraráðs, við norska ríkisútvarpið, NRK. „Það eina sem sex til tíu ára börn mega nú leika sér í er sandkassinn.“

Bæjarstjórinn í Rygge, Aud-Kristin Löken, segir að ekki verði hjá því komist að fylgja reglum ESB. „Það er fyrst og fremst verið að hugsa um öryggi barnanna, og því verðum við að fylgja reglunum.“

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert