Schwarzenegger fagnar „nýju blóði“ í Washington

Schwarzenegger með vínber í stórmarkaði í Mexíkóborg í dag.
Schwarzenegger með vínber í stórmarkaði í Mexíkóborg í dag. Reuters

Arnold Schwarzenegger, sem var endurkjörinn ríkisstjóri í Kaliforníu á þriðjudaginn, sagði í dag að það væri „allt fast“ í Washington, og sigur demókrata í þingkosningunum myndi losa um hlutina. Lagði Schwarzenegger til að ríkisstjórn George W. Bush forseta fylgdi fordæmi sínu frá Kaliforníu, þar sem hann hafi lagt áherslu á að ná samkomulagi við demókrata í mikilvægum málum.

„Ég held að það sé jákvætt að nú komi nýtt blóð til Washington, að nýtt fólk með nýjar hugmyndir komi til Washington,“ sagði Schwarzenegger, „vegna þess að það var allt fast í Washington.“ Með því að vinna saman hefðu repúblíkanar og demókratar í Kaliforníu getað lagt fyrirhugaða skuldabréfaútgáfu til að fjármagna uppbyggingu í ríkinu í dóm kjósenda, og þeir hefðu tekið því fagnandi.

Schwarzenegger sagðist ennfremur fagna fregnum þess efnis að Nancy Pelosi, fulltrúadeildarþingmaður demókrata frá Kaliforníu og væntanlegur forseti fulltrúadeildarinnar, hefði áhuga á að finna leið til samstarfs með repúblíkönum.

Schwarzenegger er nú í tveggja daga heimsókn í Mexíkó til að ræða viðskipti ríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert