Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði við blaðamenn á sunnudag að hann teldi að Íranar muni einungis fallast á málamiðlum í kjarnorkudeilunni hafi þeir ástæðu til ótta. Þá líkti hann Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta við Adolf Hitler og sagði að hann yrði að stöðva. Olmert mun eiga fund með George W. Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í dag.
„Afstaða mín er skýr. Sé hægt að finna málamiðlun sem kemur í veg fyrir að Íranar fari yfir þann tæknilega þröskuld sem mun færa þeim getu til kjarnorkuframleiðslu, þá styðjum við slíka málamiðlun,” sagði hann. „Ég tel hins vegar ekki að Íranar muni fallast á slíka málamiðlun nema þeir hafi mikla ástæðu til að óttast afleiðingar þess fallist þeir ekki á hana. Með öðrum orðum þá þurfa Íranar að fara að finna til ótta.”
Spurður um það hvaða aðferðum ætti að beita til að hræða írana sagði Olmert: „Ég held að til séu margar mismunandi aðferðir. Viðmiðið verður að vera það að yfirvöld og almenningur í Íran verði að skilja að verði þau ekki við kröfum alþjóðasamfélagsins þurfi þau að greiða það dýru verði.