Aðalendurskoðandi Enron dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi

AP

Richard Causey, fyrrverandi aðalendurskoðandi Enron, var í dag dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir þátt sinn í Enron-málinu svokallaða. Hann var eini hátt setti yfirmaðurinn hjá fyrirtækinu sem enn átti eftir að dæma. Causey samdi við saksóknara í málinu og játaði sig sekan um fjársvik í desember á síðasta ári, tveimur vikum áður en rétta átti yfir honum.

Causey samþykkti á sínum tíma að gangast undir sjö ára fangelsisvist, en ákæruvaldið gaf það út að dómurinn yrði styttur í allt að fimm ár ef Causey yrði samvinnuþýður.

Samþykkti hann einnig að greiða bandaríska ríkinu 1,25 milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur, en saksóknarar hættu við kröfur sínar um að hús hans, sem metið er á tæpa milljón dala yrðir gert upptækt.

Causey var sá eini af aðalsakborningunum í málinu sem ekki var fundinn sekur um að hafa dregið sér persónulega milljónir dala með svikum. Hann bar ekki vitni vitni í réttarhöldunum yfir Kenneth Lay og Jeffrey Skilling í málinu. Lay lést af völdum hjartaáfalls í júlí sl. en Skilling var í september dæmdur til 24 ára fangelsisvistar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert