Hollenska ríkisstjórnin ætlar að styðja frumvarp sem innflytjendaráðherra landsins hefur lagt fram þar sem múslimakonum er bannað að klæðast búrkum, klæðum sem hylja allan líkama þeirra, þar með talið andlit, á almannafæri. Ráðherrann segir að klæðin hafi truflandi áhrif á almenning og skapi óöryggi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Kosið verður til þings í Hollandi eftir fáeina daga eftir fáeina daga. Innflytjendaráðherrann, Rita Verdonk, sem þekkt er fyrir að taka harða afstöðu sagði seint á síðasta ári að hún myndi athuga slíkt bann eftir að meirihluti hollenska þingsins greiddi atkvæði með slíku banni.
Líklegt þykir að hún hafi ákveðið að láta til skarar skríða þar sem að vinstrisveifla í kosningunum hefði þau áhrif að stuðningur við frumvarpið myndi minnka.
Þá úrskurðaði nefnd sérfræðinga einnig nýlega að búrkubannið myndi ekki stríða gegn hollenskum lögum.
Gagnrýnendur frumvarpsins hafa sagt að verið sé að skerða mannréttindi borgara landsins og að verið sé að grípa til of róttækra aðgerða gegn vandamáli sem vart sé til staðar. 5% íbúa Hollands játa íslamstrú, en aðeins fáeinir tugir múslimakvenna klæðast búrkum að staðaldri.