Hvíta húsið segir ekkert hæft í fullyrðingum Hersh um Íran

AP

Talskona Hvíta hússins, Dana Perino, sagði í dag að ekki stæði steinn yfir steini í væntanlegri grein blaðamannsins Seymours Hersh í tímaritinu New Yorker um stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Íran. Sagði Perino að greinin væri „mjög ónákvæm“.

Í greininni segir Hersh að Dick Cheney varaforseti hafi tekið þátti þjóðaröryggisráðsfundi mánuði fyrir þingkosningarnar 7. nóvember þar sem m.a. hafi verið rætt um hvaða áhrif það gæti haft á stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Íran ef demókratar myndu sigra í kosningunum.

Varaforsetinn hafi fullyrt á fundinum að það yrði ekki látið líðast að sigur demókrata myndi koma í veg fyrir að ríkisstjórnin beitti hervaldi gegn Íran ef til kæmi. Ríkisstjórnin myndi sniðganga allar hindranir sem þingið, undir forustu demókrata, kynni að leggja fyrir hana.

Perino sagði að Hersh væri „rétt eina ferðina að búa til sögur í samræmi við hans eigin róttæku skoðanir“. Hersh heldur því ennfremur fram í greininni að í leynilegri skýrslu frá CIA komi fram að ekki hafi fundist neinar afgerandi vísbendingar um að Íranir séu á laun að reyna að þróa kjarnavopn, eins og bandarísk stjórnvöld hafa haldið fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert