Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands og leiðtogi Kristilega demókrataflokksins þar í landi, lýsti í kvöld yfir sigri í þingkosningum, sem fóru fram í landinu í dag. Sagði hann að flokkur sinn væri aftur stærsti þingflokkur landsins, þökk væri fjögurra ára erfiðri baráttu. Ljóst er hins vegar, að erfitt getur orðið að mynda nýja ríkisstjórn í kjölfar kosningaúrslitanna.
Kristilegir demókratar og Frjálslyndi flokkurinn hafa myndað ríkisstjórn á kjörtímabilinu sem er að ljúka en ljóst er að flokkarnir hafa ekki meirihluta á nýju þingi. Kosningabandalag undir forustu Verkamannaflokksins fær heldur ekki hreinan meirihluta.
Þegar búið var að telja 80% atkvæða var útlit fyrir að Kristilegi demókrataflokkurinn fengi 41 þingsæti, sem er betri útkoma en gert var ráð fyrir, og Verkamannaflokkurinn fái 33 þingsæti. Helsti sigurvegari kosninganna er þó Sósíalistaflokkurinn, sem hafði 9 þingmenn en fær nú 25. Frjálslyndi flokkurinn fær 22 þingsæti, tapar 6. Alls sitja 150 þingmenn á hollenska þinginu.
Líklegt er talið að Balkenende fái umboð til stjórnarmyndunar og segja fréttaskýrendur hugsanlegt að hann reyni að mynda stjórn með Verkamannaflokknum. Balkenende er fimmtugur að aldri. Hann hefur fengið viðurnefnið Harry Potter, þar sem honum þykir svipa til sögupersónunnar. Balkenende var óvinsæll í byrjun stjórnartíðar sinnar vegna þess að ríkisstjórnin greip til strangra sparnaðaraðgerða en nú þykir ljóst, að umbæturnar, sem hann beitti sér fyrir, hafi leitt til þess að efnahagslífið í Hollandi er blómlegt.