„Víkingainnrásin" vekur furðu BBC

Eggert Magnússon, nýr eigandi West Ham, ásamt knattspyrnustjóranum Alan Pardew …
Eggert Magnússon, nýr eigandi West Ham, ásamt knattspyrnustjóranum Alan Pardew á heimavelli félagsins, Upton Park. AP

Fréttavefur BBC furðar sig á því í dag hvernig Íslendingar geti staðið í jafnmiklum fjárfestingum á Bretlandseyjum og raun ber vitni, sérstaklega í ljósi þess að jafnmargir búi á Íslandi og í bænum Doncaster. Þessu er líkt við innrás víkinga og talin upp þau fyrirtæki sem Íslendingar eiga eða eiga hlut í.

Þar eru nefndar verslanirnar Woolworths, House of Fraser, Hamleys, Karen Millen, Oasis, French Connection, Whittards og matvælafyrirtækið Iceland. Hvatinn að greininni virðist vera kaup West Ham Holding, félags Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar, á knattspyrnufélaginu West Ham. Þá er einnig nefnt að Landsbankinn hafi opnað netbankareikninga fyrir breska viðskiptavini og barnaþátturinn Latibær eða Lazytown. Svo virðist sem greinarhöfundur vilji tína allt íslenskt og þekkt til, nefnir listamanninn Ólaf Elíasson og innsetningu hans í Tate Modern, Weather Project, og ungfrú heim 2005, Unni Birnu Vilhjálmsdóttur.

Greinarhöfundur segir það merkasta sem komið hafi frá Íslandi fyrir þessa víkingainnrás vera sjónvarpsmanninn Magnús Magnússon. Þá hafi Björk stokkið fram á sjónarsviðið, hún sé sérvitur eins og svo margir Íslendingar. Nú segi fjármálasérfræðingar að ekki megi gera of mikið úr áhrifum landsins á breskt viðskiptalíf. Erlend fyrirtæki taki lán á lágum vöxtum og láti svo peningana ávaxtast í íslenskum bönkum, þar sem þau fái háa vexti. Þetta hafi aukið greiðslugetu íslenskra fjárfesta en bent á hættuna á ofhitnun íslenska hagkerfisins.

Í greininni segir að áhugi Íslendinga á Bretlandi sé að miklu leyti til kominn vegna tungumálsins, enskunnar. Enska sé þjóðinni töm og sjónvarpsþættir margir á ensku sem sýndir séu í íslensku sjónvarpi. Því er að lokum spáð að vingjarnglegt viðmót Breta til íslenskra fjárfesta gæti kólnað nokkuð í kjölfar kaupanna á West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka