Íranar heita að aðstoða Íraka eftir fremsta megni

Jalal Talabani og Mahmoud Ahmadinejad slóu á létta strengi við …
Jalal Talabani og Mahmoud Ahmadinejad slóu á létta strengi við upphaf fundar þeirra í Íran í dag. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, segir að Íranar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að friður komist á í Írak á sama tíma og varað hefur verið við því að Írak rambi á barmi borgarastyrjaldar.

Ahmadinejad hét þessu við upphaf fundar hans með Jalal Talabani, forseta Íraks, sem hóf heimsókn sína til Írans í dag. Heimsókn hans tafðist um tvo daga vegna útgöngubannsins sem var lagt á eftir sprengjuárásirnar á fimmtudag í síðustu viku sem urðu 202 að bana í Bagdad. Útgöngubanninu var aflétt í dag.

Bandaríkin hafa verið hvött til þess að eiga í beinum samskiptum við yfirvöld í Teheran svo binda megi enda á blóðbaðið, en Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að borgarastyrjöld í Írak væri yfirvofandi vegna átakanna.

„Íranska þjóðin og ríkisstjórnin mun svo sannarlega standa við hlið bróður síns, Írak, og öll sú aðstoð sem ríkisstjórnin og fólkið í Íran getur lagt af hendi til þess að efla öryggið í Írak verður veitt,“ sagði Ahmadinejad.

„Það eru engin takmörk á samstarfi á nokkru sviði.“

Ahmadinejad flutti stutt ávarp skömmu eftir að Talabani kom til landsins og skömmu áður en að þeir settust niður til þess að eiga í formlegum viðræðum.

Talabani sagði að hann ætlaði að ræða bætt tengsl nágrannaríkjanna sem börðust hatrammlega í átta ár á níunda áratug síðustu aldar.

„Í þessari ferð munum við einnig ræða öryggismál í Írak því Írak þarf á alhliða aðstoð Írans að halda til þess að berjast við hryðjuverk og til þess að stuðla að stöðugleika,“ sagði Talabani.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert