Maliki hefur glatað stuðningi bandamanns úr röðum sjíta

Maliki hefur bæði verið gagnrýndur af bandarískum yfirvöldum sem og …
Maliki hefur bæði verið gagnrýndur af bandarískum yfirvöldum sem og stuðningsmönnum sínum í Írak. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti kom til Jórdaníu í dag til þess að halda neyðarfund með Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. Staða ráðherrans hefur veikst mikið í kjölfar harðrar gagnrýni bandarískra yfirvalda auk þess sem mikilvægur bandamaður úr röðum sjíta er hættur að styðja Maliki.

Klerkurinn Moqtada al-Sadr, sem nýtur stuðnings Írana og stýrir Mehdi-hernum, lét verða af hótun sinni um að sniðganga Íraksþing og sambandsstjórn Malikis ef forsætisráðherrann myndi eiga fund með Bush.

Fylking Sadrs, sem átti þátt í því að Maliki kæmist til valda, fordæmdi fundarhöldin sem hann sagði að væri „ögrun gagnvart írösku þjóðinni.“ Ekki liggur fyrir að svo hvað Sadr mun sniðganga stjórnvöld í Írak lengi.

Fyrir fundinn með Bush hafði komið fram hörð gagnrýni á hendur Maliki á minnisblaði, sem hafði lekið út úr Hvíta húsinu. Þar var efast um getu hans til þess að koma Írak til bjargar.

Mikill þrýstingur er á Bush, sem kom til Amman í dag eftir að hafa verið viðstaddur NATO-fund í Lettlandi, um að hann taki aðra stefnu í Írak svo landið leysist ekki upp í hringiðu trúarátaka. Þá er þrýst á að hann komi þeim 140.000 bandarísku hermönnum sem eru staddir í Írak út úr landinu svo sómi sé af því.

Moqtada al-Sadr lét verða af hótun sinni og sagði sig …
Moqtada al-Sadr lét verða af hótun sinni og sagði sig úr stjórn landsins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert