Rannsókn sem 500 Svíar tóku þátt í hefur leitt ýmislegt í ljós um það hvað það er sem fólk vill síst fá í jólagjöf. Sænskar konur vilja samkvæmt rannsókninni alls ekki fá kynæsandi nærföt í jólagjöf, ekki var þó sérstaklega kannað hvort konum þykir gjöfin óspennandi, eða hvort það er óttinn við að opna slíka gjöf í viðurvist fjölskyldunnar, sem veldur því að nærfötin eru óvelkomin undir jólatrénu.
Þetta er nokkuð sem karlar og konur eru sammála um, karlar vilja helst ekki nærbuxur í jólapakkann. Karlar reyndar virðast helst ekki vilja neitt fatakyns því á listanum eru sokkar, bindi og föt almennt, einkum í rangri stærð.
Karlar sem vilja heilla hitt kynið ættu einnig að forðast að gefa heimilistæki, eldhúshluti og handklæði.
Raftæki og ferðalög þykja vænlegri til að gleðja, karlar og konur eru samkvæmt könnuninni sammála um að ferðalög séu góðar gjafir, karlar hins vegar eru á því að gott sé að gefa konum skartgripi, farsíma, nærfötin óvelkomnu eða dag í heilsulind.
Konurnar sem tóku þátt í könnuninni vildu svo meina að gott væri að gefa körlunum glæsileg föt, úr, sjónvarp með flötum skjá eða einhverskonar upplifun á borð við ferðalög.