Svín réðust á indverskan dreng og átu hann lifandi

Svín átu þriggja ára gamlan dreng lifandi við útjaðar Nýju-Delhí, höfuðborgar Indlands. Drengurinn hafði farið á flakk á meðan fjölskyldan hans var innandyra að snæða hádegisverð.

Þegar móðir hans fór að leita að honum sá hún að svín nágrannans voru að naga eitthvað og í framhaldinu sá hún tætt föt sonar síns, að því er segir á fréttavef BBC.

Hún kastaði steinum í svínin sem réðust á hana. Nágrannar hennar komu henni til bjargar eftir að þeir heyrðu í neyðarópi hennar.

Ættingjar drengsins sögðu við lögregluna að drengurinn hafi haldið á brauði, og er mögulegt að það sé ástæðan fyrir því að svínin réðust á hann.

Lögreglan segist hafa handtekið eiganda svínanna og er hann sakaður um að hafa með vanrækslu sinni orðið valdur að dauða drengsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert