Bandarísk stjórnvöld hafa varað þarlendar fjármálastofnanir við hugsanlegri netárás af hálfu hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda á vefsíður banka og fjármálastofnana og á viðskiptavefi frá og með deginum í dag. Reutersfréttastofan hefur eftir heimildarmanni, sem þekkir til mála, að al-Qaeda hafi hótað því að eyðileggja gagnabanka bandarískra fjármálafyrirtækja.
Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum staðfesti, að viðvörunin hefði verið gefin út, en engin ástæða væri að ætla að hótun al-Qaeda væri trúverðug.
Í viðvöruninni segir, að al-Qaeda hóti að hefja árásirnar í dag og halda þeim áfram út desember í hefndarskyni fyrir það að meintum hryðjuverkamenn séu hafðir í haldi í fangabúðunum við Guantánamoflóa á Kúbu.
Að sögn Reutersfréttastofunnar kom hótunin frá hópi, sem nefnir sig ANHIAR al-Dollar og sagður er tengjast al-Qaeda.