Fídel Kastró Kúbuleiðtogi var ekki viðstaddur upphaf hátíðahalda á aðaltorgi Havana í dag í tilefni af 80 ára afmæli hans. Herinn var þar með mikla sýningu sem áætlað var að tæki um 1,5 klukkustund. Kastró gekkst undir skurðaðgerð í júlí s.l. og tók þá bróðir hans Raúl tímabundið við forsetaembættinu. Menn hafa efast um að Kastró sé við góða heilsu og fjarvera hans í dag ýtir undir þær vangaveltur.
Kastró hefur verið forseti Kúbu í 47 ár. Hersýningin í dag hófst með því að Raúl, bróðir hans og utanríkisráðherra landsins, var ekið um í herjeppa um torgið og heiðruðu hermenn hann með því að skjóta úr byssum. Einnig voru til sýnis skriðdrekar, eldflaugavörpur og MiG orrustuþotur sem Sovétríkin útveguðu Kúbu á sínum tíma. Reuters segir frá þessu.