Rumsfeld sendi forsetanum minnisblað um breytta stefnu gagnvart Írak

Donald Rumsfeld heilsar áhorfendum á ruðningsleik í Pennsylvaníu.
Donald Rumsfeld heilsar áhorfendum á ruðningsleik í Pennsylvaníu. Reuters

Donald Rumsfeld, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sendi forseta Bandaríkjanna minnisblað tveimur dögum áður en hann sagði af sér, um að hernaðaráætlun Bandaríkjanna í Írak væri ekki að skila tilætluðum árangri. Rumsfeld lagði til að breytingar yrðu gerðar, meðal annars að fækkað yrði í herliðinu, að því er dagblaðið New York Times greindi frá í gær.

„Að mínu mati er kominn tími til stórra breytinga. Það er greinilegt að aðgerðir Bandaríkjahers í Írak eru ekki að skila nægilega góðum árangri eða nógu skjótum,“ segir á minnisblaðinu sem Times birtir, dagsett 6. nóvember. Minnisblaðið átti ekki að koma fyrir almenningssjónir.

Minnisblað Rumsfeld eykur enn þrýstinginn á George W. Bush Bandaríkjaforseta um að breyta áætlun sinni gagnvart Írak. Rumsfeld nefnir nokkra möguleika, að fækka hermönnum og herstöðvum og endurskoða markmið Bandaríkjastjórnar með hersetunni. Það væri þó ekki freistandi að halda ráðstefnu um ástandið. Robert Gates mun brátt taka við af Rumsfeld. Reuters segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert