Berlingske Tidende sýknað af ákæru vegna Íraksfrétta

Michael Bjerre, Jesper Larsen og Niels Lunde ræða við blaðamenn …
Michael Bjerre, Jesper Larsen og Niels Lunde ræða við blaðamenn eftir að dómurinn var kveðinn upp. Reuters

Héraðsdómur í Kaupmannahöfn hefur sýknað aðalritstjóra og tvo blaðamenn blaðsins Berlingske Tidende af ákæru vegna skrifa blaðsins um skýrslur öryggisþjónustu danska hersins, en skýrslunum var lekið til blaðsins og fréttir upp úr þeim þóttu grafa undan stefnu danskra stjórnvalda um þátttöku í Íraksstríðinu.

„Dómurinn er mikill sigur fyrir tjáningarfrelsið og sýnir, að í Danmörku er þjóðfélagið mjög opið og fjölmiðlar eru frjálsir," sagði Niels Lunde, aðalritstjóri Berlingske, eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Blaðamennirnir tveir, Michael Bjerre og Jesper Larsen, vitnuðu í skýrslu dansks leyniþjónustumanns, Frank Grevil, í greinum sem birtust í blaðinu árið 2004 og voru í kjölfarið ákærðir fyrir að grafa undan öryggishagsmunum danska ríkisins með því að birta trúnaðarupplýsingar.

Í skýrslunni, sem skrifuð var áður en innrásin í Írak hófst 2003, komst Grevil að þeirri niðurstöðu að engin gereyðingarvopn væru í Írak. Grevil var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í fyrra fyrir að hafa lekið upplýsingunum til blaðamannanna.

Í niðurstöðu dómsins í dag segir, að hagsmunir almennings, að fá upplýsingar um málið hafi vegið þyngra en hagsmunir stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert