Hersveitir á Fiji-eyjum hófu í morgun að afvopna lögreglu í því sem talið er fyrstu skrefin í valdaráni í landinu. Hermenn eru sagðir hafa farið í búðir vopnaðrar sveitar lögreglu og tekið þar vopn og skotfæri. Moses Driver, yfirmaður lögreglunnar í landinu kallar aðgerðirnar ólöglegar en segir lögreglu ekki hafa veitt neina mótspyrnu.
Deilt hefur verið um lög sem stjórnvöld hafa sett, þar sem þeim sem stóðu að valdaráni á Fiji-eyjum árið 2000 er veitt sakaruppgjöf. Höfðu heryfirvöld hótað valdaráni sl. föstudag ef ekki yrði hætt við lagasetninguna. Ekkert varð af valdaráninu þá en Voreqe Bainimarama yfirmaður hersins í landinu sagðist ætlast til þess að Laisenia Qarase, forsætisráðherra segði af sér í dag.