2% þeirra einstaklinga sem eiga mest í heiminum eiga um helming allra auðæfa heimsins en helmingur jarðarbúa á aðeins 1% þeirra. Þetta kemur fram í skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Misskipting auðs er meiri en misskipting tekna, að því er fram kemur í skýrslunni, en hún heitir „The World Distribution of Household Wealth“ og nær yfir árið 2000.
Eignir upp á 2.200 dollara eða meira koma mönnum á lista helmings þeirra sem ríkastir voru árið 2000 en þeir sem áttu eignir upp á 61.000 dollara komast í hóp 10% þeirra ríkustu. 1% þeirra ríkustu í heimi eiga 500.000 dollara eða meira, um 31,4 milljónir króna, en 37 milljónir manna eru í þeim hópi.
Þessi könnun er sú fyrsta sem metur eignir heimila með tilliti til skulda, landareigna, fasteigna og annarra eigna og það á jörðinni allri. Í skýrslunni voru laun ekki tekin með í myndina, lífeyrisgreiðslur eða bótagreiðslur. Um fjórðungur þeirra 10% sem mest eiga búa í Bandaríkjunum en fimmtungur í Japan.
Skýrslan gerir ráð fyrir því að milljarðamæringum muni fjölga mikið á næstu árum í heiminum miðað við þróunina seinustu ár.