Robert Gates, sem tilnefndur hefur verið í embætti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir árás á Íran eða Sýrland ekki koma til greina að sinni hálfu nema sem algert neyðarúrræði. Þá sagðist hann fyrir hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag ekki telja að Bandaríkin séu á sigurbraut í Írak. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Gates sagði ljóst að hernaðaraðgerðir gegn Írönum myndu hafa mikil áhrif á öryggi Bandaríkjanna og vísaði í því sambandi til Íraks, sem hann sagði dæmi um það hvernig hernaðaraðgerðir gætu haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Spurður um ástandið í Írak kvaðst hann vera opinn fyrir nýjum hugmyndum varðandi framgöngu Bandaríkjamanna og sagði alla möguleika koma til greina í því sambandi málinu. Þá tók hann undir staðhæfingar nefndarmanna um að ástandið í Írak væri óásættanlegt og lagði áherslu á að þróun mála þar muni hafa langvarandi áhrif á ástandið í Miðausturlöndum.
„Framganga okkar á næstu einu til tveimur árum mun skera úr um það hvort bandarísku og írösku þjóðirnar og forseti Bandaríkjanna standa frammi fyrir hægri en jákvæðri þróun í Írak eða þeim raunverulega möguleika að víðtæk átök blossi upp,” sagði hann. Spurður um það hvort hann teldi Bandaríkin vera á sigurbraut í Írak svaraði hann neitandi.
Demókratinn Carl Levin, verðandi formaður nefndarinnar, sagði þá að Bandaríkin þyrftu varnarmálaráðherra sem segði Bandaríkjaforseta sannleikann en ekki bara það sem hann vildi heyra og svaraði Gates því til að forsetinn myndi alltaf hafa síðasta orðið varðandi hugsanlegar stefnubreytingar.
Talið er að nefndin muni staðfesta tilnefningu Gates eftir að hann hefur svarað spurningum hennar og að hann muni í kjölfar þess koma fyrir öldungadeildina í næstu viku.