Lögreglan í London fer með rannsóknina á láti Alexanders Lítvínenkós, fyrrverandi KGB-njósnara, eins og morðmál, að því er greint var frá í dag. Fram að þessu hefur rannsóknarlögreglan litið á andlát Lítvínenkós sem „óútskýrt“, og aldrei talað um að hann hafi verið myrtur. Lítvínenkó lést á sjúkrahúsi í London, eftir að hafa verið byrlað eitur.
Í tilkynningu frá lögreglunni í London í dag segir að rannsókn málsins sé komin á það stig að „viðeigandi“ sé að telja að um morð hafi verið að ræða. Þó sé lögð áhersla á að engar ályktanir hafi verið dregnar um það hvernig morðið hafi verið framið.
Samkvæmt upplýsingum frá University College-sjúkrahúsinu, þar sem Lítvínenkó lést, var honum byrlað pólóníum-220, sem er geislavirkt efni, og varð það honum að aldurtila.
Breskir rannsóknarlögreglumenn eru komnir til Moskvu til að rannsaka lát Lívínenkós, en bandaríska sjónvarpsstöðin ABC greindi frá því að grunur lögreglunnar beindist að Andrei Lugovoi, fyrrverandi njósnara rússnesku leynilögreglunnar, en lögreglan í London hefur aðeins nefnt Lugovoi sem hugsanlegt vitni í málinu.
Lugovoi er nú á sjúkrahúsi í Moskvu þar sem hann hefur gengist undir rannsókn vegna hugsanlegrar geislunar.
Hann hitti Lítvínenkó í London 1. nóvember, og sama dag fór hann á leik Arsenal og CSKA Moskva á Emirates-leikvanginum, en þar hafa síðan fundist merki um leifar af pólóníum-220. Lugovoi hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að svara spurningum bresku lögreglunnar.