Ísraelsk stofnun sakar Hizbollah um stríðsglæpi

Ísraelsk rannsóknarstofnun, sem starfar í nánum tengslum við leyniþjónustu Ísraelshers, segir í skýrslu sem birt var í morgun að 650 af 1.084 einstaklingum sem létu lífið í stríðinu í Líbanon í sumar og líbönsk yfirvöld segja að hafi verið óbreyttir borgarar, hafi í raun verið liðsmenn Hizbollah samtakanna. Þá er því haldið fram í skýrslunni að liðsmenn Hizbollah hafi dulbúið sig sem óbreytta borgara og með því brotið alþjóðalög um framgöngu í hernaði. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Í skýrslunni segir að Hizbollah samtökin hafi komið upp vopnabúrum í moskum og á nokkur hundruð heimilum óbreyttra borgara og að liðsmenn þeirra hafi ekið bílum hlöðnum vopnum á eftir sjúkrabílum. Þá segir að með þessu hafi Hizbollah viljað draga úr baráttuvilja Ísraela og veikja ímynd þeirra á alþjóðavettvangi.

Sameinuðu þjóðirnar og ýmis mannréttindasamtök hafa sakað Ísraela um að brjóta lög sem banna hernaðarárásir á borgaralegar byggingar og óbreytta borgara. Samkvæmt alþjóðalögum er hins vegar ólöglegt að nota borgaralegar byggingar til hernaðarárása og sé það gert er heimilt að endurskilgreina umræddar byggingar sem hernaðarmannvirki.

Reuven Erlich, forstjóri stofnunarinnar, segir skýrsluna vera hugsaða sem svar Ísraela við ásökunum um að þeir hafi með ólögmætum hætti ráðist á óbreytta borgara í Líbanon. Skýrslunni fylgja afrit af vitnisburði handsamaðra Hizbollah-liða og myndir að vopnabúrum í borgaralegum hverfum og af Hizbollah-liðum að senda flugskeyti úr slíku umhverfi. Talsmaður Hizbollah-samtakanna vísar þeim fullyrðingum sem fram eru settar í skýrslunni algerlega á bug. Claudio Cordone, talsmaður mannréttindasamtakanna, Amnesty International segir hins vegar fátt nýtt koma fram í skýrslunni enda leiki enginn vafi á því að Hizbollah hafi geymt vopn og staðið fyrir hernaðaraðgerðum frá svæðum óbreyttra borgara í suðurhluta Líbanons.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka