Líkamsleifar fundust í krókódíl á Indónesíu

Krókódíll.
Krókódíll. AP

Íbúar í þorpi í Austur-Nusa Tenggara héraði á Indónesíu urðu heldur betur hissa þegar þeir ristu upp krókódíl og fundu þar tvær hendur og fótlegg. Krókódílinn höfðu þeir veitt og drepið en hann var um 500 kg og 5 metra langur. Talið er að krókódíllinn hafi étið 59 ára veiðimann sem saknað hefur verið í viku. Í krókódílnum fundust einnig hlutar úr höfuðkúpu úr manni, hár og stuttbuxur.

Þúsundir krókódíla búa í ám og vötnum Indónesíu, en um 17.000 eyjar tilheyra landinu. Það er þó ekki algengt að krókódílar éti menn þar. Í það minnsta fimm manns hafa týnst seinustu mánuði á sama svæði og talið að þeir hafi einnig orðið krókódílum að bráð. Krókódílarnar lifa í söltu vatni og telja íbúar í héraðinu að þeir hafi étið tugi nautgripa, svína, geita og hænsna.

Krókódíllinn var skorinn í smátt og kjötinu skipt milli þorpsbúa. Samkvæmt trú þorpsbúa verða þeir að borða krókódílinn til þess að fleiri menn verði ekki krókódílum að bráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert